Hu heitir uppbyggingu í Xinjiang

Hu Jintao, forseti Kína,með Uighur-mönnum í þorpinu Aksu í Xinjiang
Hu Jintao, forseti Kína,með Uighur-mönnum í þorpinu Aksu í Xinjiang Reuters

Hu Jintao, forseti Kína, sagðist vonast til þess að sjá þróun í átt til meiri velsældar og jafnvægis í Xinjiang sjálfstjórnarhéraðinu er hann heimsótti héraðið í fyrsta sinn frá því átök brutust út á milli þjóðarbrota þar í byrjun júlí. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

„Lykillinn að vinnu okkar í Xinjiang er sá að fara rétt að varðandi uppbyggingu og stöðugleika," sagði Hu. 

Hann þakkaði sérstaklega öryggissveitum, her og lögreglumönnum fyrir framgöngu þeirra við að brjóta uppþotin í héraðshöfuðborginni Urumqi, á bak aftur. Þá hét öllum íbúum héraðsins hraðri þróun í átt til aukinna lífsgæða.

„Í framtíðinni verður uppbyggingin í Xinjiang meiri og hraðari,” sagði hann. „Lífsgæði munu batna enn meira. Við skulum vinna saman að því að skapa betri framtíð.”

Hu sagði alríkisyfirvöld í Kína leggja mikla áherslu á velferð minnihlutahópa og sakaði glæpamenn um að standa á bak við uppþotin sem hann sagði hafa verið skipulögð af aðskilnaðarsinnum bæði innan Kína og utan.

Átök brutust út á milli Uyghur-manna og Han-Kínverja í héraðinu í kjölfar mótmælaaðgerða Uyghur-manna þann 5. julí og segja yfirvöld hátt í 200 hafa látið lífið í þeim, flesta þeirra Han-Kínverja. Um tvöhundruð manns hafa verið ákærðir í tengslum við átökin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert