Þjóðarsorg eftir sjóslys

Báturinn Ilinden sökk á Ohrid vatni í Makedóníu fyrr í …
Báturinn Ilinden sökk á Ohrid vatni í Makedóníu fyrr í dag. STR

Lýst hefur verið yfir þjóðarsorg í Makedóníu og Búlgaríu eftir að bátur sökk í Ohrid vatni í suðvesturhluta Makedóníu með þeim afleiðingum að 15 manns létust. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Báturinn Ilinden sökk á aðeins fjórum mínútum um 200 metrum frá landi. Alls var 42 farþegum bjargað, en fjórir voru alvarlega sárir eftir slysið. Slysið átti sér stað á vinsælum ferðamannastað í Makedóníu.

Haft er eftir ráðamönnum í Makedóníu að slysið megi rekja til annars vegar tæknilegra bilunar og hins vegar því að of margt fólk var um borð í bátnum þegar hann sökk.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Búlgaríu voru allir farþegarnir sem létust Búlgarar. 

Mile Janakievski, samgöngumálaráðherra Makedóníu, hefur boðist til þess að segja af sér vegna málsins. 

Skipstjóri og eigandi bátsins, hinn 23 ára Sotir Filevski, er í haldi lögreglunnar sem stendur og hefur verið yfirheyrður vegna málsins. Upphaflega töldu menn að hann hefði verið í hópi látinna, en svo reyndist ekki vera. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert