Fangar á flótta í Pa

MOHAMMED SALEM

Að minnsta kosti fimmtíu föngum tókst að flýja frá fangelsi í Papúa Nýju-Gíneu. Ástæðuna má rekja annars vegar til þess að fangaverðir mættu ekki á vaktir sínar og hins vegar þess að lögreglan var upptekin við að gæta leikvangs þar sem fram fór rúgbý-leikur.

Föngunum tókst að búa sér til holu í stálgirðingu  sem umkringdi klefa þeirra og tókst 54 þeirra að flýja. Aðeins er búið að ná fjórum þeirra og því eru fimmtíu enn á flótta. Haft er eftir talsmönnum fangelsisins, sem staðsett er nærri Port Moresby, að andrúmsloftið á staðnum sé enn rafmagnað.

Að sögn talsmanna fangelsisins uppgötvaðist flóttinn ekki fyrr en nokkrum klukkustundum eftir að hann átti sér stað, sökum þess að margir fangaverðir mættu ekki í vinnuna sl. sunnudag vegna deilna um launakjör. Alls eru hátt á sjöunda hundrað fangar í fangelsinu.


Ekki fást upplýsingar um það hjá forsvarsmönnum fangelsisins fyrir hvað fangarnir sem flýðu höfðu verið dæmdir.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert