Obama vonsvikinn

Fréttaskýrendur segja að það hafi verið mikið áfall fyrir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, að Chicago, heimabær forsetans, skuli ekki hafa hlotið náð fyrir Alþjóðaólympíunefndinni. Ársþing nefndarinnar fór fram í Kaupmannahöfn í dag og það verður Rio de Janeiro í Brasilíu sem mun halda ólympíuleikana árið 2016.

Obama og Michelle Obama, eiginkona hans, gerðu það sem þau gátu til að fá nefndarmenn til að velja Chicago, en án árangurs.

Obama og frú flugu til Kaupmannahafnar til að hafa áhrif á val nefndarinnar. Chicago féll hins vegar úr leik í fyrstu umferð kosninganna í dag. Sem fyrr segir varð Rio de Janeiro fyrir valinu, en Tókýó og Madrid sóttu einnig um að halda leikana.

Obama var að fljúga heim til Bandaríkjanna þegar hann fékk fréttirnar að Chicago væri úr leik. Hann staldraði aðeins við í um fimm tíma í Danmörku, þar sem hann ávarpaði nefndina og aðra gesti.

„Eins og þið getið rétt ímyndað ykkur, þá er forsetinn vonsvikinn,“ segir Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins, við blaðamenn um borð í forsetavélinni.

Talsmaður Hvíta hússins vísar því á bug að vonbrigði forsetans sé enn eitt pólitíska áfallið fyrir ríkisstjórn Obama, sem eigi í erfiðum baráttum á mörgum vígstöðvum. Bæði innan- sem utanlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert