Vinsældir Söruh Palin dvína

Tekst Söruh Palin að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni repúblíkana …
Tekst Söruh Palin að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni repúblíkana árið 2012? Reuters

Vinsældir Söruh Palin fara sífellt dvínandi og þar með minnka líkurnar á því að henni takist að verða forsetaefni repúblíkana í forsetakosningunum árið 2012. 

Samkvæmt nýrri könnun sem bandaríska greiningarfyrirtækið Rasmussen Report hefur gert meðal kjósenda Repúblíkanaflokksins nefna lendir hún í þriðja sæti á lista yfir vænleg forsetaefni. Fyrir sjö mánuðum lenti Palin efst á þessum lista. Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Politiken. 

Alls voru 750 kjósendur Repúblíkanaflokksins spurðir og nefndu aðeins 18% Palin sem fyrsta val. Í fyrsta og öðru sæti lenda fylkisstjórarnir Mitt Romney og Mike Huckabee sem árið 2008 bitust um útnefningu sem forsetaefni við John McCain. 

Alls vildu 29% aðspurðra sjá Mike Huckkabee sem forsetaefni flokksins, en 24% nefndu Mitt Romney. 

Í sömu könnun var einnig spurt hvern kjósendur myndu síst vilja sjá sem forsetaefni flokksins. Þar nefndu flestir Tim Pawlenty eða 28%, en næstflestir eða 21% nefndu Söruh Palin. Huckabee og Romney voru nefndir í 8-9% tilvika. 

Sé bakgrunnur þeirra sem sjá vilja Huckabee og Romney sem forsetaefni má sjá að afstaða þeirra til fylkisstjóranna tveggja ræðst fyrst og fremst af trú þeirra og tekjum. Þeir kjósendur sem styðja Romney sækja kirkju eini sinni í mánuði eða sjaldnar. Kjósendur sem styðja Huckabee fara mun oftar í kirkju. Þeir kjósendur sem þéna meira en 75.000 bandaríkjadali eða sem samsvarar 9,3 milljón íslenskra króna styðja frekar Romney, meðan þeir sem minna hafa milli handanna styðja fremur Huckabee. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert