Brown lætur ekki fæla sig frá Afganistan

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar megi ekki láta fæla sig frá Afganistan, þrátt fyrir þá hættu sem steðjar að hermönnum þar. Hann kallar fallna breska hermenn í stríðinu í Afganistan hetjur.

Í ræðu í London í dag sagði hann: ,,Við getum ekki og megum ekki og munum ekki ganga í burtu” frá verkefninu í Afganistan. Á meðan hernaðurinn þar hefði kæfandi áhrif á Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin, sem enn ráðgeri árásir á breska borgara, megi ekki hætta honum. Tilefnið var það að fimm breskir hermenn voru drepnir í Helmand héraði á þriðjudaginn, af afgönskum lögreglumanni sem þeir höfðu þjálfað.

Brown sagði að þjálfun lögreglumanna yrði að halda áfram, því það skildi á milli frelsishers og hersetuliðs, að sá fyrrnefndi hjálpaði þeim innfæddu að standa á eigin fótum. Hann sagði einnig að fyrir árslok 2010 ætti afganski herinn að hafa vaxið úr 80.000 manns í 130.000 manns.

Brown gaf Hamid Karzai, forseta Afganistan, einnig fyrirmæli í ræðunni, um stjórnarhætti í Afganistan. Hann sagði að ný lög þyrfti að setja gegn spillingu og koma á fót stofnun sem berðist gegn spillingu í landinu.

Breska ríkisútvarpið BBC sagði frá.

Gordon Brown.
Gordon Brown. Pool
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert