Íhlutun hefði getað leitt til kjarnorkustríðs

Mikhaíl Gorbatsjof og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í Potsdam í …
Mikhaíl Gorbatsjof og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í Potsdam í gærkvöldi. Reuters

Byltingin í Austur-Þýskalandi, sem lauk með falli Berlínarmúrsins fyrir réttum 20 árum, hefði vel getað leitt til kjarnorkustríðs ef Sovétríkin hefðu beitt sér gegn mótmælendum. Þetta fullyrti Mikhaíl Gorbatsjof, þáverandi forseti Sovétríkjanna, í sjónvarpsviðtali í Þýskalandi um helgina.

Þess verður minnst við Brandenborgarhliðið í Berlín í dag, að austur-þýsk stjórnvöld lýstu því yfir 9. nóvember 1989 að Austur-Þjóðverjar gætu heimsótt Vestur-Berlín og Vestur-Þýskaland. Þetta gerðist eftir fjölmennar mótmælaaðgerðir í landinu vikurnar á undan sem náðu hámarki á Alexanderplatz 4. nóvember þar sem um 1 milljón manns kom saman.

Austur-þýski herinn beitti sér ekki gegn mótmælendunum og ekki var hleypt af skoti. Gorbatsjof sagði hins vegar í viðtali við sjónvarpsstöðina ZDF, að þróunin hefði vel getað orðið önnur ef Sovétríkin hefðu beitt sér en árið 1989 voru um 550 þúsund sovéskir hermenn í Austur-Þýskalandi.

 „Fólkið fór út á göturnar og setti fram sínar kröfur. Við fylgdumst grannt með en blönduðum okkur ekki í málið. Við vorum með hermenn og skriðdreka þarna en við beittum þeim ekki. Hefðum við gert það hefðu afleiðingarnar getað orðið gríðarlegar, hugsanlega kjarnorkustríð," sagði Gorbatsjof. Fréttamaður norska blaðsins Aftenposten í Þýskalandi segir frá viðtalinu við Gorbatsjof í dag.

Gorbatsjof hafði mánuðina og vikurnar  á undan ítrekað átt viðræður við Erich Honecker, leiðtoga Austur-Þýskalands, og Egon Krenz, arftaka hans. Fyrstu daga nóvembermánaðar áttu þeir Gorbatsjof og Krenz fundi í Moskvu.

„Þeir voru órólegir og sögðu, að það gengi illa í Austur-Þýskalandi. Og við svöruðum: Það er ykkar mál. Þetta eru ykkar vandamál. Leysið þau sjálfir," sagði Gorbatsjof í viðtalinu.

Sovésku hermennirnir fengu fyrirmæli um að halda sig í herstöðvum, sem voru allt í kring um Berlín. Hermennirnir máttu ekki ögra mótmælendum eða blanda sér í það sem gerðist í Austur-Þýskalandi. Aldarfjórðungi fyrr, árið 1953, greip sovéski herinn hins vegar inn í þróun mála í Austur-Þýskalandi og bældi niður mótmælaaðgerðir í austurhluta Berlínar.

Gorbatsjof var sjálfur í Austur-Berlín þegar 40 ára afmæli austur-þýska ríkisins var fagnað 7. október 1989. Hann segir að þá hafi farið fram viðræður við Honecker og aðra í stjórn austur-þýska kommúnistaflokksins. Honecker lét síðan af embætti flokksleiðtoga 18. október. 

Gorbatsjof hefur verið í Berlín síðustu vikuna og tekið þátt í fundum og ráðstefnum. Hann mun taka þátt í hátíðarhöldunum við Brandenborgarhliðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert