Bjóða 7,2 milljarða evra

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra …
Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, á leiðtogafundi ESB. Reuters

Aðildarríki Evrópusambandsins hyggjast bjóða alls 7,2 milljarða evra á næstu þremur árum í alþjóðlegan sjóð sem á að nota til að hjálpa fátækum þróunarlöndum að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga í heiminum.

Stjórnarerindreki í Brussel skýrði frá þessu. Áður höfðu Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, skýrt frá því að Bretar og Frakkar myndu leggja fram samtals 1,5 milljarða evra. Hermt er að auðugu ríkin í Evrópusambandinu hafa átt í erfiðleikum með að fá fátækari lönd í Austur-Evrópu til að lofa framlögum í sjóðinn á tveggja daga leiðtogafundi Evrópusambandsins í Kaupmannahöfn í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Yvo de Boer, framkvæmdastjóri Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, vill að auðug iðnríki leggi fram alls 10 milljarða dollara á ári í þrjú ár frá 2010 til 2012 og féð verði notað til hjálpa fátækum löndum að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga í heiminum, svo sem þurrka, flóð, illviðri og hækkun sjávarborðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert