Blóðug mótmæli í Íran

Andstæðingar stjórnvalda í Íran fylla nú götur Tehran á öðrum degi blóðugra mótmæla í borginni. Óstaðfestar fregnir herma að fjórir hafi fallið, en íranska lögreglan neitar því. Erlendu fjölmiðlafólki er bannað að flytja fréttir beint frá mótmælunum.

Þessar myndir sem hér birtast eru fengnar eftir óáreiðanlegum heimildum þar aðgangur fjölmiðla er heftur og hefur áreiðanleiki þeirra ekki fengist staðfestur frekar en fréttir af dauðsföllum.  Á vefsíðum róttæklinga er fullyrt að tugþúsundir manna mótmæli nú á götum nokkurra stærstu borga landsins og á myndskeiðinu sést þar sem særðir mótmælendur eru bornir burt af götum Tehran. Svartir reykjarbólstrar rísa nú til himins yfir höfuðborginni. 

Á einni vefsíðu segir jafnframt að lögreglumenn hafi neitað að hlýða fyrirskipunum yfirvalda um að skjóta á mótmælendur.  Aðrar fregnir herma að mótmælendur hafi flúið undan skothríð lögreglu. Reuters hefur eftir öðru vitni á staðnum að íranskar öryggissveitir reyni að hindra hópa mótmælenda í að sameinast. Opinbera fréttastofan Fars News Agency sakar erlenda fjölmiðla um að ýkja ástandið og æsa upp óróleikann í landinu.

Mótmælendur eru sagðir kyrja „Þetta er mánuður blóðsúthellinga“ og krefjast þeir þess að æðstiklerkur Íran, Ayatollah Ali Khamenei, verði steypt af stóli. 

Mikið öngþveiti ríkir á götum Tehran vegna átakanna
Mikið öngþveiti ríkir á götum Tehran vegna átakanna AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert