Miliband sagður ögra Brown

David Miliband og Gordon Brown.
David Miliband og Gordon Brown. Reuters

Breska blaðið Daily Mail sagði í kvöld, að David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, væri að ögra Gordon Brown, forsætisráðherra, með því að lýsa því yfir við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, að Bretar myndu ekki vinna gegn Íslendingum á alþjóðavettvangi þrátt fyrir stöðuna í Icesave-málinu.

Blaðið segir, að þessi yfirlýsing Milibands sé í mótsögn við afstöðu Browns, sem hafi hótað Íslendingum alvarlegum afleiðingum ef þeir greiði Bretum ekki til baka fé vegna Icesave-reikninga Landsbankans. 

Daily Mail segir, að ummæli Miliband muni kalla á gagnrýni um að hann taki ekki nægilega fast á Íslandi og ætti frekar að gæta hagsmuna breskra skattgreiðenda.  

Þá sýni ummælin hve samskipti Milibands og Browns séu stirð og grafi undan stöðu Browns, daginn eftir að fyrrum ráðherrar reyndu að velta honum úr leiðtogastóli í Verkamannaflokknum. Sú atlaga mistókst þó en til þess var tekið hve breskir ráðherrar voru seinir til að lýsa stuðningi við Brown. 

Daily Mail segir, að þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, neitaði að staðfesta Icesave-lögin, hafi heimildarmenn í forsætisráðuneytinu breska sagt, að greiði Íslendingar ekki Icesave-skuldina gæti það haft áhrif á afdrif umsóknar þeirra um aðild að Evrópusambandinu. 

Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins sagði hins vegar við Daily Mail í kvöld, að Bretar styðji heilshugar umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert