Fleiri villur í skýrslunni

Rajendra Pachauri.
Rajendra Pachauri. reuters

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) sætir vaxandi gagnrýni vegna frétta um að fundist hafi fleiri villur í skýrslu hennar frá árinu 2007 um loftslagsbreytingar af mannavöldum þar sem hún spáir m.a. 1,8-4° hlýnun á öldinni og hækkun sjávarborðs.

Í skýrslunni var því meðal annars haldið fram að hlýnun jarðar gæti orðið til þess að landbúnaðarframleiðsla, sem byggðist á regnvatni, kynni að minnka um 50% í Norður-Afríku fyrir árið 2020. Rajendra Pachauri, formaður loftslagsnefndarinnar, og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hafa vitnað í þessa fullyrðingu í ræðum sínum.

Breska blaðið The Sunday Times hefur hins vegar eftir Chris Field, sem hefur verið skipaður formaður annars vinnuhóps IPCC, að hann hafi ekki fundið neitt í skýrslunni sem styðji þessa fullyrðingu.

The Sunday Times skýrði einnig frá því í gær að hollenskur ráðherra hefði krafist þess að loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna leiðrétti fullyrðingu í skýrslunni um að rúmur helmingur landsvæða Hollands væri undir sjávarmáli. Í raun er um fjórðungur landsins undir sjávarmáli. Loftslagsnefndin er sökuð um að hafa látið hjá líða að sannreyna upplýsingar sem hún fékk frá hollenskri ríkisstofnun.

Að sögn The Sunday Telegraph hafa fundist fleiri villur í skýrslunni og dæmi um að loftslagsnefndin hafi notað ótraustar heimildir.

Notaði fréttatilkynningar og óbirtar lokaritgerðir

Blaðið segir að meðal annars hafi komið fram nokkrar villur í skýringarmynd sem notuð var til að sýna hversu mikla raforku hægt væri að framleiða með því að beisla ölduorku heimshafanna. Í skýrslunni er heimildin sögð vera vefsíða breska ölduorkufyrirtækisins Wavegen en þegar sú vefsíða er skoðuð kemur í ljós að þar eru aðrar tölur en í skýrslunni.

Sem dæmi um ótraustar heimildir í skýrslu loftslagsnefndarinnar nefnir The Sunday Telegraph fullyrðingar sem byggjast á fréttatilkynningum og fréttabréfum. Ennfremur hafi komið fram fleiri dæmi um fullyrðingar sem byggist á lokaritgerðum við háskóla, m.a. á tveimur ritgerðum sem hafi ekki enn verið birtar.

Fullyrðingar um afleiðingar hlýnunar eða tillögur um aðgerðir til að fyrirbyggja þær byggðust meðal annars á upplýsingum úr 10 meistararitgerðum. Önnur óbirtu ritgerðanna er eftir námsmann við Al-Azhar-háskóla í Kaíró og var notuð til að renna stoðum undir fullyrðingu um að hækkandi sjávarborð gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólk sem býr á óshólmum Nílar og öðrum strandsvæðum í Afríku þótt ritgerðin snerist að mestu um allt annað efni, þ.e. áhrif tölvubúnaðar á þróun umhverfisins.

Loftslagsnefndin hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að nota skýrslur frá umhverfisverndarhreyfingum með niðurstöðum sem ekki hafi verið sannaðar vísindalega.

Minni háttar villur?

The Sunday Telegraph hefur eftir nokkrum loftslagsvísindamönnum að villurnar í skýrslu loftslagsnefndar SÞ séu minni háttar og breyti ekki meginniðurstöðum nefndarinnar um hlýnun jarðar af mannavöldum.

Vísindamennirnir telja að meginniðurstöður loftslagsnefndarinnar séu réttar en þeir hafa áhyggjur af vinnubrögðum hennar þegar hún aflaði upplýsinga í skýrslur sínar. Vísindamennirnir gagnrýna nefndina einkum fyrir að nota ótraustar heimildir, sem byggjast ekki á svonefndri jafningjarýni. Þeir segja slíkar heimildir óþarfar vegna þess að til séu nægar vísindalegar sannanir fyrir loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Nefndin hefur m.a. verið gagnrýnd fyrir þá fullyrðingu að „mjög líklegt“ sé að allir jöklar í Himalajafjöllum verði horfnir árið 2035. Engar rannsóknir munu vera að baki fullyrðingunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert