Talibanar þræta fyrir handtöku

Afganskur hermaður fjarlægir hvítan fána talibana í bæ sem afganski …
Afganskur hermaður fjarlægir hvítan fána talibana í bæ sem afganski herinn náði í gær úr höndum talibana. Reuters

Talibanar segja að fréttir um að Abdul Ghani Baradar, helsti herstjóri þeirra hafi verið handtekinn  í Pakistan fyrir skömmu, séu ekki réttar og hann stýri enn uppreisn talibana í Afganistan.

Bandarískir fjölmiðlar hafa hins vegar eftir ónafngreindum embættismönnum að bandarískir og pakistanskir leyniþjónustumenn hafi handtekið Baradar í Karachi fyrir nokkrum dögum.  

Verði þessar fréttir staðfesta væri það mikið áfall fyrir talibana, sem hafa barist gegn afgönskum stjórnvöldum og vestrænum hersveitum í Afganistan frá því þeir voru hraktir frá völdum í landinu síðla árs 2001 fyrir að veita hryðjuverkamönnum skjól. 

Undanfarna daga hafa um 15 þúsund hermenn frá Bandaríkjaher, NATO og Afganistan, gert harða atlögu gegn talibönum í suðurhluta Afganistans með það að markmiði að hrekja þá frá bæjum og borgum sem þeir hafa ráðið.  

Að sögn blaðsins New York Times, sem skýrði frá handtökunni í morgun, er Baradar hægri hönd Mullah Mohammads Omars, leiðtoga Talibana. Segir blaðið að pakistanskir og bandarískir embættismenn yfirheyri nú Baradad.

AFP fréttastofan hefur hins vegar eftir Yousuf Ahmadi, talsmanni talibana, að fréttir af handtökunni væru rangar og til þess ætlaðar að beina athyglinni frá þeirri hörðu mótstöðu, sem herflokkar talibana sýndu í suðri.  Sagði Ahmadi að Baradar væri í Afganistan og stýrði þar aðgerðum talibana.  

Háttsettir pakistanskir embættismenn sögðu við AFP að þeir hefðu ekki upplýsingar um málið.   

Baradar hefur stýrt hernaðaraðgerðum talibana um árabil og var náinn samstarfsmaður Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda fyrir áður en hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Bandaríkin árið 2001. 

New York Times hafði eftir bandarískum embættismönnum, að þeir vonuðu að handtaka Baradars muni leiða þá á slóð annarra leiðtoga hreyfingarinnar.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert