Ítölsk spilling „alvarleg meinsemd“

Kærum vegna spillingar fjölgaði mjög á Ítalíu í fyrra.
Kærum vegna spillingar fjölgaði mjög á Ítalíu í fyrra. Reuters

Spilling er „alvarleg meinsemd“ á Ítalíu. Kvörtunum vegna spillingar fjölgaði um 229% fyrstu ellefu mánuði ársins 2009 samanborið við sama tímabil árið áður, að sögn ítalska ríkissaksóknarans í dag.

Það hve greiða leið spillingin á inn í stjórnkerfið  „skemmir ímynd ríkisins og dregur úr trausti... á stofnunum landsins,“ sagði Tullio Lazzaro, formaður dómstóls efnahagsmála.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í tilefni af nýju dómsári á Ítalíu sagði hann að mikill þrýstingur sé á opinbera stjórnsýslu að byggja upp „innra mótefni“ gegn spillingunni.

Mario Ristuccia, saksóknari við dómstólinn, sagði að alls hafi borist 221 kæra frá því í janúar og út nóvember 2009. Hann sagði fjölda mála í nokkuð réttu hlutfalli við opinbert fé sem er til reiðu í hverju héraði. 

Mið- og norðurhluti Toskana-héraðs er í fararbroddi en í þessum mánuði hófst þar rannsókn á hneykslismáli sem tengist opinberum útboðum.  Þar hafa verið gefnar út 21 kvaðning af 92 um að koma fyrir efnahagsbrotadómstólinn.

„Spillingin veldur í raun þjóðarneyð,“ sagði Massimo Donandi þingmaður. Hann situr á þingi fyrir lítinn stjórnmálaflokk sem hefur baráttu gegn spillingu á stefnuskrá sinni. „Hún er orðin að stjórnkerfi, verra en því sem ríkti í fyrsta lýðveldinu.“ Því lauk þegar langæ stjórn Kristilegra demókrata féll vegna fjölda hneykslismála á tíunda áratug síðustu aldar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert