Tugir þúsunda mótmæla í Bangkok

Tugir þúsunda stjórnarandstæðinga, flestir utan af landi, hafa safnast saman í Bangkok, höfuðborg Taílands, til að mótmæla og þrýsta á ríkisstjórn landsins að segja af sér og boða til kosninga.

Mikill viðbúnaður er og gæta um 40.000 hermenn og lögreglumenn helstu ríkisstjórnarbygginga.

Mótmælendurnir, sem margir klæðast rauðu, eru flestir stuðningsmenn Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forseta landsins. En herinn bolaði Shinawatra, sem ásakaður var um spillingu, frá völdum 2006. Fólkið hefur streymt til Bangkok frá því á föstudag. 

Að sögn fréttavefs BBC eru um 100.000 mótmælendur í borginni. Margir þeirra söfnuðust saman framan við svið í miðborg Bangkok þar sem forsvarsmenn mótmælanna hvöttu fólk áfram. „Rauðliðar alls staðar um land kalla á ríkisstjórnina að veita almenningi valdið á ný og leysa samstundis upp þing. Við stöndum hér og væntum svars innan sólarhrings,“ sagði Veera Musikapong, einn leiðtogi mótmælenda

Ríkisstjórn Taílands hefur tilkynnt að hún hafi engan hug á að segja af sér.

Skipuleggendur hafa lofað því að mótmælin muni fara friðsamlega fram, en hafa þó sagt að verði stjórnvöld ekki við kröfum þeirra þá muni þeir setja aukin kraft í mótmælin.


Mótmælendurnir eru flestir stuðningsmenn Thaksin Shinawatra, fyrrum forseta landsins.
Mótmælendurnir eru flestir stuðningsmenn Thaksin Shinawatra, fyrrum forseta landsins. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert