Eðlilegt flug í öskuskýi

Evrópski flugvélarframleiðandinn Airbus sendi í gær flugvélar á loft til að meta áhrifin sem aska frá Eyjafjallajökli hefur á flugvélar sem fljúga yfir Evrópu.

Fram kemur í tilkynningu frá Airbus, að tvær flugvélar fóru í loftið frá Toulouse flugvelli klukkan 14:25 og 14:50 að frönskum tíma. Meðan á flugi stóð fylgdust áhafnir með hegðun flugvélanna og hreyflanna. Flugvélarnar voru einnig skoðaðar ýtarlega eftir að þær lentu aftur.

Airbus segir, að áhafnirnar hafi ekki tekið eftir neinu óeðlilegu meðan á flugi stóð og skoðun á vélunum eftir að þær lentu gaf ekki neitt óeðlilegt til kynna. Niðurstöðurnar hafa verið sendar framleiðendum hreyflanna og flugmálayfirvöldum til þess að aðstoða við að meta aðstæður til öruggs flugs.

Flugvélarnar sem flogið var í þessu reynsluflugi eru Airbus A 380 MSN 4, knúin fjórum EA hreyflum og Airbus A340-600 MSN 360 knúin Rolls Royce hreyflum. A 380 vélin flaug í þrjár klukkustundir og 50 mínútur innan franskrar lofthelgi og A340 flugvélin flaug í fimm klukkustundir innan franskrar og þýskrar lofthelgi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert