Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sagði á ráðstefnu um málefni Afganistans í Kabúl í morgun, að bandalagið verði áfram með herlið í landinu eftir að afgönsk stjórnvöld takast á hendur ábyrgð á öryggismálum.
Ráðstefnunni er ætlað að leggja línur fyrir afgönsk stjórnvöld. Hamid Karzai, forseti Afganistans, sagði á ráðstefnunni að ríkisstjórn hans ynni að því að axla fulla ábyrgð á öryggismálum í landinu í lok ársins 2014.
Rasmussen sagði, hins vegar að þessi umskipti yrðu byggð á „skilyrðum, ekki dagatali," og hersveitir NATO muni halda áfram að þjálfa lögreglu og her Afganistans svo þessar stofnanir yrðu í stakk búnar til að verja landið fyrir árásum uppreisnarmanna talibana.
„Umskiptin munu fara fram hægt en örugglega - á grundvelli mats á pólitísku ástandi og stöðu öryggismála," sagði Rasmussen. „Og þegar að því kemur munu alþjóðlegu hersveitirnar ekki yfirgefa landið heldur taka að sér stuðningshlutverk. Það má ekki neitt fara úrskeiðis; við erum komnir of langt og kostnaðurinn er orðinn of mikill."
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á ráðstefnunni að ekki væri hægt að fresta því endalaust að Afganir öxluðu ábyrgð á öryggismálum í landinu.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sendi 30 þúsund manna liðsauka til Afganistans í fyrravetur en sagðist jafnframt vilja að byrjað yrði að flytja bandaríska hermenn heim frá og með júlí 2011.
Clinton sagði í morgun, að sú dagsetning væri upphaf nýs tímabils en þýddi ekki að Bandaríkjamenn ætluðu að hverfa frá því markmiði, að byggja upp stöðugt, friðsamt og öruggt Afganistan.
Karzai sagði í ræðu sinni, að alþjóðasamfélagið hafi lagt Afganistan til nægilega fjármuni. Hann fór fram á að ríkisstjórn hans fái yfirráð yfir helmingi fjárins en nú renna um 20% af framlaginu beint til afganskra stjórnvalda. Á móti hét hann því að bæta
stjórnsýsluna og uppræta spillingu.