Fangavörður nasista ákærður

Gasklefi í einum af útrýmingarbúðum nasista.
Gasklefi í einum af útrýmingarbúðum nasista. Reuters

Þýsk yfirvöld hafa ákært Samuel Kunz, sem er fyrrverandi vörður í útrýmingarbúðum nasista, fyrir að hafa átt þátt í dauða 430.000 gyðinga á tímum seinni heimstyrjaldarinnar.

Kunz, sem hefur játað að hafa starfað í Belzec-útrýmingarbúðunum í Póllandi á milli áranna 1942 og 1943, fékk að vita að hann yrði ákærður í síðustu viku. Þetta segir talsmaður saksóknarans í Dortmund.

Þá hefur Kunz borið vitni í máli John Demjanjuk, sem hefur vakið mikla athygli. Demjanjuk er sakaður um að hafa tekið þátt í að myrða 27.900 manns á tímum seinna stríðs. Hann er sagður hafa starfað sem vörður í Sobibor útrýmingarbúðunum.

Kunz er á meðal eftirlýstustu manna á lista sem Stofnun Simon Wiesenthal Center, sem hefur unnið að því að hafa uppi á nasistum, birti í apríl.

Leitað var heimili Kunz í janúar sl. Hann neitar því að hafa komið með beinum hætti að morðunum.

Í stríðsglæparéttarhöldunum í Nürnberg, sem voru haldin eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar, hlutu nokkrir af helstu leiðtogum nasista dauðadóma. Frá þeim tíma hafa þýsk stjórnvöld rannsakað yfir 25.000 mál sem tengjast glæpum nasista. Fæst málanna hafa hins vegar endað fyrir dómstólum. 

Undanfarin ár hefur staðan breyst og hafa fjölmargir verið handteknir og mörg dómsmál höfðuð vegna stríðsglæpa nasista. Flestir hinna handteknu eru nú um nírætt.

Kunz er 88 ára gamall. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert