Sjáandi vísaði á lík

Kona ein sem heldur því fram að hún sé skyggn, gerði tilraun til að finna týnda sex ára gamla stúlku í Ástralíu nýlega, en fann þess í stað búk af fullorðinni konu.

Konan hafði samband við lögreglu eftir að hafa heyrt fréttir af stúlkunni, Keishu Abrahams, sem er nú búin að vera týnd í 12 daga. Hún sagði lögreglu að hún hefði fengið skilaboð að handan um að á ákveðnum stað væri eitthvað að finna.

Hún leiddi lögregluna á staðinn og þar kom í ljós búkur af fullvaxinni konu, á svæði sem nefnist Doonside. Höfuðið, handleggirnir og fæturnir höfðu verið teknir af og búkurinn vafinn inn í plastpoka.

„Það er ansi áhugavert að hún hafi haft tilfinningu fyrir því að rétt væri að koma á þennan tiltekna stað,” segir Pamela Young, yfirlögreglumaður í samtali við Sky fréttastofuna. Talið er að búkurinn sé af konu sem saknað hefur verið um tveggja mánaða skeið, Kristi McDougall að nafni.

McDougall hvarf eftir að hafa sagt vinum sínum að hún væri á leiðinni til Ermington. Keisha Abrahams sást hins vegar síðast heima hjá móður sinni og fósturföður í Mount Druitt. Lögreglan hefur yfirheyrt foreldra hennar og lítur á þau sem grunuð í málinu, en þau neita því að eiga nokkurn hlut í hvarfi hennar.

Ekki er tekið fram í frétt Sky News hvort lögreglan hafi konuna, sem heldur því fram að hún sé skyggn, grunaða um að hafa valdið dauða Kristi McDougall, sem fannst samkvæmt ábendingu hennar.

Keisha Abrahams, stúlkan sem er saknað.
Keisha Abrahams, stúlkan sem er saknað.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert