Konur eru 2% þeirra sem dæmdir eru til dauða

Teresa Lewis
Teresa Lewis

Um 2% af þeim sem dæmdir hafa verið til dauða í Bandaríkjunum á síðustu 37 árum eru konur.  Allt bendir til þess að Teresa Lewis verði tekin af lífi í dag með eitursprautu í Virginíu-ríki.

Frá ársbyrjun 1973 til 30. júní 2009 hafa 8.118 einstaklingar verið dæmdir til dauða í Bandaríkjunum, að því er fram kemur í frétt á BBC. 165 konur eru í þessum hópi eða 2%. Á þessu tímabili hafa 1.168 Bandaríkjamenn verði teknir af lífi, þar af 11 konur. Lewis verður 12 konan í röðinni sem verður tekin af lífi eftir að dauðarefsingar voru heimilaðar á ný í Bandaríkjunum. Hún verður fyrsta konan frá 1912 til að vera tekin af lífi í Virginíu.

Fjallað hefur verið um aftöku Lewis um allan heim. Mál hennar er sérstakt. Hún hefur játað að hafa tekið þátt í að skipuleggja morð á eiginmanni sínum og stjúpsyni og að hafa keypt vopn sem notuð voru til að myrða þá. Þeir sem myrtu þá, Matthew Shallenberger og Rodney Fuller, voru dæmdir í ævilangt fangelsi.

Lewis er með greindarvísitöluna 72 og hafa lögfræðingar hennar notað það til að reyna að fá dauðadóminum yfir henni hnekkt. Hún sé ólíkleg til að hafa skipulagt morðin eins og kemur fram í dómnum. Lögfræðingarnir hafa haldið því fram að Shallenberger, sem átti í ástarsambandi við Lewis, hafi verið maðurinn á bak við morðin. Hann framdi síðar sjálfsmorð í fangelsinu.

Verjendur Lewis héldu því ekki fast á lofti í réttarhöldunum yfir henni að hún væri greindarskert. Ástæðan er sú að ekkert í lögum styður að taka eigi tillit til greindar fólks þegar fólk er dæmd fyrir morð.

„Það er fátítt að konur séu dæmdar til dauða fyrir morð,“ segir Victor Streib, prófessor í lögum við Ohio Northern-háskóla, í samtali við BBC. Hann bendir á að 2% þeirra sem dæmdir hafi verið til dauða fyrir morð í Bandaríkjunum séu konur er 10-12% þeirra sem fremja morð séu konur.

Hann segir að tilhneiging sé til að trúa því að konur sem fremji morð séu eitthvað bilaðar eða undir sterkum áhrifum frá körlum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert