Skotið á verslun í Malmö

Járnbrautarstöðin í Malmö.
Járnbrautarstöðin í Malmö.

Talið er að tveimur skotum hafi verið skotið í gegnum glugga hárgreiðslustofu í Malmö í Svíþjóð í kvöld. Eigandi verslunarinnar lenti í kjölfarið í átökum við karlmann, sem lagði á flótta. Hugsanlegt er talið, að um sé að ræða manninn sem ber ábyrgð á fjölda skotárása á innflytjendur í borginni á síðustu mánuðum.

Í sama hverfi og hárgreiðslustofan var skotið úr byssu í gærkvöldi en þá sakaði engan.  

Eigandi hárgreiðslustofunnar, sem er af arabískum uppruna, var þar inni þegar hann heyrði smell í glugganum. Hann fór út og sá mann, sem réðist á hann og skallaði í ennið. Síðan lagði árásarmaðurinn á flótta á reiðhjóli. Honum var lýst þannig, að hann sé 1,70 metrar á hæð, í appelsínugulum jakka með endurskinsmerki. 

Lögreglan fann tvö kúlugöt í glugga hárgreiðslustofunnar en segir ekki öruggt að þau séu ný. 

Lögreglan í Malmö sagði í dag, að rannsóknir hafi leitt í ljós, að sami maður hafi verið að verki í að minnsta kosti fimm skotárásum í borginni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert