Stunduðu njósnir í Kaupmannahöfn

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar

Danska fréttastöðin TV2 heldur því fram að bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn hafi stundað leynilegt eftirlit í borginni. Sömu ásakanir birtust í norskum fjölmiðlum í gær.

TV2 segir að sveit manna, að minnsta kosti 14, hafi fengið það hlutverk að hafa sólarhringseftirlit í hverfinu við sendiráðið. Þetta hefur TV2 eftir fyrrverandi starfsmanni sem stundaði slíkt eftirlit. 

AFP-fréttstofan segir að talsmaður bandaríska sendiráðsins hafi neitað að tjá sig um fréttina. Það komi aftur á móti til álita að sendiráðið sendi frá sér yfirlýsingu.

TV2 segir að eftirlitssveitin hafi fylgst með dönskum ríkisborgunum. Nöfn þeirra og aðrar persónuupplýsingar hafi verið skráðar í sérstakan tölvugagnagrunn sem kallast Security Incident Management Analysis System (SIMAS).

Einnig var „grunsamlegum“ einstaklingum veitt eftirför í nágrenni sendiráðsbyggingarinnar  að sögn heimildarmann TV2.

Skv. frétt AFP er óljóst hvort dönsk stjórnvöld hafi vitað af þessu eftirliti. Án leyfis sé þessi starfsemi ólögleg.

Dómsmálaráðuneyti Danmerkur hefur einnig neitað að tjá sig um fréttina. Það segir þó að Lars Barfoed, dómsmálaráðherra landsins, hafi verið boðaður á lokaðan þingfund til að ræða málið innan tveggja vikna.

Sömu ásakanir hafa einnig birst í norskum fjölmiðlum. TV2 í Noregi greindi frá því á miðvikudag að bandaríska sendiráðið í Ósló hefði ráðið á bilinu 15 til 20 einstaklinga, þ.á.m. fyrrverandi hátt setta lögregluforingja, til að hafa eftirlit með íbúum í grennd við sendiráðið. Tilgangurinn hafi verið að koma í veg fyrir árásir á bandaríska hagsmuni í Noregi.

Þá kom fram í fréttinni að eftirlitið hafi verið stundað frá árinu 2000.

Fyrr í þessari viku greindi norska ríkisstjórnin frá því að hún hafi krafið bandaríska sendiráðið skýringa. Í gær hófst rannsókn á því hvort norska ríkisstjórnin eða öryggisstofnanir í landinu hafi haft vitneskju um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert