Sænskum þingmanni vísað úr landi í Ísrael

Sænski þingmaðurinn Mehmet Kaplan
Sænski þingmaðurinn Mehmet Kaplan Af vef Wikipedia

Ísraelar vísuðu í dag sænska þingmanninum Mehmet Kaplan úr landi einungis nokkrum mínútum eftir að flugvél sem hann kom með til Ísrael lenti. Kaplan, sem er þingmaður Græningja er af tyrkneskum uppruna. Hann var meðal þeirra sem voru um borð í skipi sem flutti hjálpargögn til Gaza í maí. 

Samkvæmt upplýsingum frá ísraelskum stjórnvöldum voru skjöl hans ekki fullnægjandi en hann hafði ekki fengið vegabréfsáritun áður en hann yfirgaf Svíþjóð.  

Dror Feiler, ísraelskur listamaður sem býr í Svíþjóð, sem hefur afsalað sér ísraelskum ríkisborgararétt var einnig vísað úr landi þegar hann lenti á Ben Gurion flugvellinum í Tel Aviv í dag. 

Þeim hafði báðum verið vísað úr landi eftir að sérsveitarmenn úr Ísraelsher gerðu árás á skipalest sem flutti hjálpargögn til Gaza þann 31. maí sl. Þeir voru ásamt fleiri Svíum um borð í einu skipanna.

Þeir höfðu báðir skrifað undir yfirlýsingu eftir handtökuna þá um að þeir myndu leita til sendiráðs Ísraels í sínu heimalandi til þess að fá vegabréfsáritun áður en þeir kæmu á ný til Ísrael. Segir talsmaður stjórnvalda í Ísrael að hvorugur mannanna hafi virt þau tilmæli og því verið vísað úr landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert