Sjómenn á skoskum makrílskipum fordæma ákvörðun Íslendinga um að auka einhliða makrílkvóta sinn úr 130.000 tonnum í tæp 147.000 tonn á næsta ári. Þeir segja þetta vera pólitíska ákvörðun sem geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir makrílstofninn, að sögn fréttavefjarins fishnews.com.
Ian Gatt, framkvæmdastjóri félags skoskra uppsjávarfiskimanna, sagði að í ljósi þess að Íslendingar hafi ekki veitt þessa tegund fyrir árið 2005 þá sé ákvörðun þeirra um að auka allt of miklar veiðiheimildir sínar enn meira hámark ábyrgðarleysisins og geti valdið stofninum, sem skoski flotinn hafi veitt úr og passað, raunverulegum skaða.
Hann benti á að Íslendingar hafi ekki einu sinni náð að veiða þann kvóta sem þeir úthlutuðu á þessu ári. Hann sagði vafa leika á að Íslendingum takist að veiða eitthvað nálægt þeim heimildum sem veittar verða á næsta ári, í ljósi alls þess makríls sem þeir veiddu á miðum sínum á þessu ári.
„Það er mikilvægara nú en nokkru sinni að Evrópusambandið beiti Íslendinga refsiaðgerðum á viðskiptasviðinu til að bregðast við óábyrgri hegðun þeirra,“ sagði Gatt.