Blaðamaður myrtur í New York

Þekktur portúgalskur blaðamaður fannst látinn á hótelherbergi í New York í gær. Fram kemur í fjölmiðlum í borginni að Carlos Castro hafi fundist liggjandi í blóði sínu á hótelherberginu og verið geldur. Hann var 65 ára gamall og skrifaði í mörg af stærstu dagblöðum Portúgals.

Tvítug karlfyrirsæta er nú í haldi á Bellevue geðsjúkrahúsinu vegna málsins. Á föstudag fór hann á sjúkrahús í borginni vegna skurða sem hann var með úlnliðunum.

New York Times hefur eftir rannsóknarlögreglumönnum að ungi maðurinn og Castro hafi skráð sig inn á hótelið nokkrum dögum áður. 

Vinum blaðamannsins í Portúgal er mjög brugðið vegna málsins.

„Þetta var draumaborg Carlosar Castros og hann elskaði Broadway. Það er hræðilegt að hann hafi verið myrtur á svona hrottalegan hátt, þetta er viðbjóðslegt,“ segir leikstjórinn Filipe La Feria.

„Carlos sagðist vita að hann myndi brátt deyja og að hann vildi deyja í New York,“ segir söng- og leikkonan Simone De Oliveira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert