Gorbachev mátti ekki stofna flokk

Gorbachev er ósáttur við þróun mála í Rússlandi.
Gorbachev er ósáttur við þróun mála í Rússlandi. Reuters

Síðasti leiðtogi Sovétríkjanna sálugu, Mikhaíl Gorbatsjev skaut hörðum skotum á valdamenn í Rússlandi. Hann sagði þá vera spillta og að honum hefði verið bannað að stofna stjórnmálaflokk.

Þetta sagði Gorbatsjev í samtali við rússneska dagblaðið Novaya Gazeta sem tekið var í tilefni áttræðisafmælis hans, sem verður 2. mars.

Hann sagði að hann hefði viljað stofna stjórnmálaflokk með sósíaldemókratískum áherslum, en Vladislav Surkov, sem er einn helsti embættismaður í Kreml hafi sagt að hann fengi ekki að skrá flokkinn. Surkov er talinn hafa byggt upp núverandi valdakerfi í Rússlandi.

Gorbatsjev sakar ráðamenn í Rússlandi um að láta sér á sama standa um fólkið í landinu og hann gagnrýnir auðkýfinginn  Roman Abramovitsj, sem hann segir vera spilltan og að stjórnmálamenn taki hann sér til fyrirmyndar.

„Ég skammast mín fyrir spillingu auðmanna. Ég skammast mín fyrir þjóð mína,“ sagði Gorbatsjev  Hann sagði að rússnesk stjórnmál væri einungis fyrir þá útvöldu og að breytinga væri þörf.

Gorbatsjev er talinn njóta meiri hylli á Vesturlöndum en í heimalandi sínu, þar sem margir telja hann hafa átt stóran hlut í að heimsveldi hrundi. Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1990, en segist ekki hafa notað féð til persónulegra nota, heldur hafi hann varið því til byggingar spítala fyrir fórnarlömb kjarnorkuslyssins í Tsjhernobyl.

Tónleikar verða haldnir honum til heiðurs í  Royal Albert Hall í London á afmælisdaginn, þar sem ýmsir heimsþekktir listamenn munu hylla hann.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert