Sýndu bin Laden látinn

Osama bin Laden
Osama bin Laden

Pakistanskar sjónvarpsstöðvar sýndu í morgun myndir af því sem sagt er vera blóðugt andlit Osama bin Laden, eftir að fregnir bárust af því um heimsbyggðina að hann væri látinn.

Sýnt var svartskeggjað andlit, með blóðblettum á enni og gagnauga. Á nýlegum myndum af bin Laden hefur skegg hans verið farið að grána, en ekkert slíkt sást á myndunum sem sýndar voru í sjónvarpinu.

Sjónvarpsstöðvarnar sýndu einnig myndir frá bækistöðvum bin Ladens í  Abbottabad, þar sem hann var lést í gærkvöldi eftir skotbardaga við bandaríska sérsveitarmenn. Svo virðist, sem bækistöðvarnar hafi verið brenndar.

Viðbrögð þjóðarleiðtoga hafa verið á einn veg. Frakkar segja að dauði Osama sé sigur fyrir lýðræði hvarvetna í heiminum og utanríkisráðherra Ítalíu segir að dauði hans sé táknrænn fyrir sigur hins góða á hinu illa.

Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, segir að þetta séu góðar fréttir fyrir alla frelsishugsandi menn.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, óskaði Barack Obama Bandaríkjaforseta til hamingju með sigur hans „í nafni réttlætis, frelsis og sameiginlegra lýðræðisgilda þjóða sem hafa barist gegn hryðjuverkum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert