Pakistanska leyniþjónustan blygðast sín

Pakistanska leyniþjónustan, ISI, segist blygðast sín vegna þess að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hryðjuverkaleiðtoginn Osama bin Laden hafðist við í húsi í bæ ekki langt frá höfuðborg landsins.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir ónafngreindum embættismanni hjá ISI, að gerð hafi verið húsleit árið 2003 á svæðinu í bænum Abbottabad þegar verið var að byggja húsið þar sem bin Laden var ráðinn af dögum í fyrrakvöld. Síðan hafi leyniþjónustan ekki fylgst með staðnum.

„Þessi mistök ættu ekki þó að gera það að verkum að litið sé á okkur sem óhæfa stofnun. Skoðið afrekaskrá okkar. Á síðasta áratug höfum við handsamað hundruð leiðtoga talibana og al-Qaeda, fleiri en öll önnur lönd til saman," sagði embættismaðurinn. 

Embættismaðurinn sagði einnig, að ung dóttir bin Ladens hefði séð þegar faðir hennar var skotinn til bana. Hann sagði að 17-18 manns hefðu verið í húsinu þegar árásin var gerð en meðal þeirra sem lifðu hana af voru jemensk eiginkona bin Ladens og um tugur barna. Embættismaðurinn hafði eftir eiginkonunni, að hópurinn hefði flutt í húsið fyrir nokkrum mánuðum.

Fylgdust með í beinni útsendingu

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og helstu þjóðaraöryggisráðgjafar hans fylgdust með aðgerðunum í beinni sjónvarpsútsendingu í Hvíta húsinu.  Leon Panetta, forstjóri Hvíta hússins, lýsti atburðunum í útsendingunni frá annarri skrifstofu í Washington.

Bin Laden var nefndur Geronimo í aðgerðinni. BBC segir, að frásögn Panettas hafi varað í  nokkrar mínútur. „Þeir sjá Geronimo... Geronimo E  KIA," sagði Panetta. E stendur fyrir óvinur (enemy) og KIA fyrir féll í orrustu (killed in action).

Obama sagði þá: „Við náðum honum." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert