Fundu tölvugögn í húsi bin Ladens

Dauði bin Ladens var aðalfrétt dagblaða um allan heim í …
Dauði bin Ladens var aðalfrétt dagblaða um allan heim í morgun. Reuters

Bandarísku sérsveitarmennirnir, sem réðu hryðjuverkaleiðtogann Osama bin Laden af dögum, fundu mikið af tölvugögnum, bæði harða diska og geisladiska, í húsinu þar sem bin Laden hafðist við í Pakistan.

Bandaríski vefurinn Politico hefur eftir bandarískum embættismanni, að um sé að ræða gríðarlega verðmætar upplýsingar. Verið er að rannsaka tölvugögnin á leynilegum stað í Pakistan.

Vefurinn hefur eftir embættismanninum, að hundruð manna séu að yfirfara gögnin.

Fram kemur, að aðgerðin í húsi bin Ladens hafi átt að taka 30 mínútur en hafi tekið 38 mínútur, aðallega vegna þess að ein af fjórum þyrlum, sem notaðar voru, þurfti að nauðlenda vegna vélarbilunar.  Þegar ljóst var að ekki var hægt að hefja þyrluna á loft að nýju var hún sprengd í loft upp. 

Sérsveitarmennirnir fóru upp á þriðju hæð hússins þar sem svefnherbergi bin Ladens var. Árásin tók aðeins nokkrar sekúndur en henni lauk með því að bin Laden var skotinn í höfuðið ofan við vinstra augað. Breska ríkisútvarpið BBC segir, að bin Laden hafi einnig verið skotin í brjóstið.

Þá var eiginkona bin Ladens skotin í kálfann. Pakistönsk stjórnvöld hafa í kjölfarið handtekið 9 konur og 23 börn sem voru í byggingunni.   

Bandarísk stjórnvöld hafa undir höndum myndir af aðgerðunum, bæði í húsi bin Ladens og einnig þegar líki hans var sökkt í sæ á Arabíuflóa. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort þær verða birtar.

Í gær fór mynd, sem virtist vera af illa leiknu líki bin Ladens, um netið en síðan kom í ljós að um var að ræða fölsun.

Hermenn standa vörð við hús bin Ladens í Abbottabad í …
Hermenn standa vörð við hús bin Ladens í Abbottabad í Pakistan í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert