Forstjóri AGS grunaður um kynferðislega árás

Dominique Strauss-Kahn,
Dominique Strauss-Kahn, Reuters

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, var handtekinn í New York í kvöld vegna ásakana um að hann hefði beitt þernu á hóteli í borginni kynferðislegu ofbeldi.

Bandaríska blaðið New York Times sagði á vef sínum, að Strauss-Kahn, sem orðaður hefur verið við forsetaframboð í Frakklandi, hafi verið handtekinn á John F. Kennedy flugvelli. Var hann kominn inn í flugvél sem var að leggja af stað til Frakklands.

Óeinkennisklæddir lögreglumenn á vegum hafnarstjórnar New York og New Jersey handtóku Strauss-Kahn og afhentu hann síðan lögreglunni á Manhattan. Búist var við að hann yrði fluttur á lögreglustöð á Manhattan. 

Lögreglan í New York fékk fyrr í dag tilkynningu um að gerð hefði verið gróf kynferðisleg árás á konu, sem starfar á Sofitel hótelinu við Times Square í New York. 

New York Times hefur eftir Paul J. Browne, talsmanni lögreglunnar í borginni, að klukkan 13 að staðartíma í dag hefði þernan, sem er 32 ára, ætlað að þrífa herbergi Strauss-Kahns. Þá hafi hann komið nakinn út úr baðherberginu og reynt að ráðast á hana kynferðislega.  

Konunni tókst að losa sig og gera öðru starfsfólki viðvart, sem hringdi á lögreglu. Þegar lögreglan kom á hótelið var Strauss-Kahn farinn. Lögregla frétti síðan af því að Strauss-Kahn væri kominn um borð í flugvél Air France og lét handtaka hann.  

Browne sagði, að þernan hefði verið flutt á sjúkrahús en hún hefði hlotið minni háttar áverka.

Strauss-Kahn, sem er 62 ára gamall Frakki, hefur verið talinn líklegur frambjóðandi Sósíalistaflokksins í forsetakosningum í Frakklandi á næsta ári og skoðanakannanir bentu til þess að hann ætti góða sigurmöguleika. Hann er fyrrverandi hagfræðiprófessor, sat um tíma á franska þinginu á níunda áratug síðustu aldar og var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Lionels Jospins til ársins 1999. 

Strauss-Kahn sóttist eftir því að vera forsetaframbjóðandi Sósíalistaflokksins árið 2007 en beið lægri hlut fyrir  Ségolène Royal. Skömmu síðar var hann útnefndur framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og naut þá stuðnings Nicolas Sarkozys, nýkjörins forseta Frakklands. 

Strauss-Kahn, sem er kvæntur þekktri sjónvarpsfréttakonu, hefur áður lent í hneykslismálum. Árið 2008 var hann sakaður um að hafa átt í kynferðislegu sambandi við konu, sem starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sjóðurinn réði lögmenn til að rannsaka málið og í kjölfarið hætti konan störfum hjá sjóðnum og fór að vinna fyrir Þróunarbanka Evrópu. Strauss-Kahn baðst síðar afsökunar á dómgreindarbresti, sem hann hefði sýnt. 

Ísland gerði samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um efnahagsaðstoð eftir bankahrunið haustið 2008. Fimmta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hjá sjóðnum er áformuð í júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert