Fleiri ásakanir á hendur Strauss-Kahn

Dominique Strauss-Kahn fluttur á brott frá lögreglustöð í New York …
Dominique Strauss-Kahn fluttur á brott frá lögreglustöð í New York í nótt. Reuters

Nýjar ásakanir á hendur Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um kynferðisbrot komu fram í frönskum fjölmiðlum í gærkvöldi. 

Starfsmaður franska Sósíalistaflokksins sagði, að Strauss-Kahn hefði árið 2002 leitað á dóttur sína, sem er guðdóttir annarrar eiginkonu Strauss-Kahn. 

Sagt er frá þessu á vef bresks blaðsins Guardian. Þar kemur fram, að Tristane Banon var á þrítugsaldri þegar hún bað Strauss-Kahn um blaðaviðtal árið 2002. 

Banon sagði frá reynslu sinni í sjónvarpsþætti árið 2007 en þar var nafn Strauss-Kahns ekki nefnt. Í þættinum lýsti Banon honum sem „óðum shimpansa á fengitíma" og sagðist hafa þurft að verjast honum með kjafti og klóm. 

„Þetta endaði illa...ég sparkaði í hann," sagði hún. „Í átökunum  nefndi ég orðið nauðgun til að hræða hann en það hafði engin áhrif. Mér tókst þó að sleppa."

Banon leitaði til lögfræðings en lagði ekki fram kæru. „Ég vildi ekki verða þekkt til æviloka sem stúlkan sem lenti í vandræðum með stjórnmálamanninn."

Anne Mansouret, móðir Banon, sagði við blaðamenn í gærkvöldi að hún hefði ráðlagt dóttur sinni að fara ekki áfram með málið, m.a. vegna tengslanna við fjölskyldu Strauss-Kahns. „Mér þykir þetta leitt nú," sagði hún. „Ég ber þunga ábyrgð."

Mansouret sagði, að Strauss-Kahn væri dagfarsprúður, hlýr og afar hæfileikaríkur. En árásin hefði valdið dóttur sinni andlegum erfiðleikum. Hún hafi enn ekki náð sér þótt langt sé liðið frá atburðinum. Þá sagði hún ljóst, að Strauss-Kahn ætti í erfiðleikum með að stjórna hvötum sínum.

Fram kom í morgun, að Banon, sem er 31 árs, ætli nú að leggja fram formlega kæru á hendur Strauss-Kahns vegna málsins.

Guardian segir, að kvennafar Strauss-Kahns virðist hafa verið opinbert leyndarmál í frönsku stjórnmálalífi árum saman. Blaðið hefur eftir Thierry Saussez, fyrrverandi ráðgjafa Nicolas Sarkozys, forseta Frakklands, að allir í París hafi vitað lengi, að Strauss-Kahn ætti við vandamál að stríða. Fáar konur, sem starfa við blaðamennsku, vilji taka við hann viðtal einar.

Árið 2009 fjallaði franski útvarpsmaðurinn Stephane Guillon í pistli um þráhyggju Strauss-Kahns gagnvart konum og fleiri hafa einnig nefnt þetta í umfjöllun um hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert