Klósettskál hent í pólitískan andstæðing

Klósettskálin var blessunarlega hrein.
Klósettskálin var blessunarlega hrein.

Boris Nmetsov, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar og harður gagnrýnandi Vladimírs Pútíns, forsætisráðherra landsins, segir að óþekktur árásarmaður hafi skemmt Range Rover bifreið sína á föstudag með því að kasta klósettskál í hann þar sem hann var lagður á bílastæði í miðborg Moskvu.

„Þeir hentu klósettskál á þak bílsins úr mikilli hæð,“ sagði Nemtsov sem vildi ekki gefa upp hvern hann grunaði um að standa að baki árásinni. Sagði hann lögreglu neita að rannsaka málið sem sakamál.

Talskona þingmannsins sagði lögregluna sýna málinu engan áhuga og að hún teldi að árásarmennirnir myndu ekki finnast. Sagði hún klósettskálina hafa skemmt þak bílsins og framrúðu hans. Tók hún sérstaklega fram að skálin hafi verið hrein.

Nemtsov hefur sagt að honum sé veitt eftirför og að bílstjórar hans hafi í gegnum tíðina fundið gps-senda undir bílnum hans. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Rússlandi hafa ítrekað verið áreittir í gegnum tíðina. Hverfandi líkur eru taldar á að að stjórnarandstaðan eigi sér viðreisnar von í þingkosningum sem fara fram í desember.

Nokkrir leiðtogar hennar, Nemtsov þeirra á meðal, skiluðu í síðasta mánuði inn skjölum til þess að skrá nýjan stjórnarandstöðuflokk en sérfræðingar í rússneskum stjórnmálum segja enga möguleika á að umsóknin fari í gegn fyrir kosningarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert