Býli rýmd í Reykjavík

Fjölskylda Lorraine Johnson hefur búið þarna í Vogum í meira …
Fjölskylda Lorraine Johnson hefur búið þarna í Vogum í meira en 100 ár en nú er útlitið svart. mbl.is/Lorraine Johnson

Ekki sér fyrir endann á miklum flóðum við Manitobavatn í Kanada og óttast íbúarnir, sem að miklum hluta eru af íslenskum ættum, að ástandið eigi enn eftir að versna og flytja þurfi um 100.000 nautgripi í burtu.

Öll fimm býlin á Reykjavíkurskaganum við norðurhluta vatnsins hafa verið rýmd og ástandið er vægast sagt ískyggilegt á stöðum eins og til dæmis í Vogum, Eddystone, Steep Rock, Asham Point og Bay End. Kirkjugarðurinn í Reykjavík er undir vatni og eignir liggja undir skemmdum. Bændur geta ekki sáð og ljóst er að þeir standa frammi fyrir heyskorti í haust.

„Þetta er hræðilegt,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, sem hefur ásamt manni sínum Allan Johnson rekið nautgripabú á Reykjavíkurskaganum síðan 1999. Þegar best lét voru þau með um 460 kýr en urðu að fækka þeim niður í um 250 í kjölfar kúariðu og slæmrar tíðar undanfarin ár.

Lorraine og Kelly Johnson eru með 230 kýr í Eddystone en bróðir hennar býr í Vogum þar sem langalangafi hennar, Jón Jónsson þingmaður, settist að fyrir meira en 100 árum. „Flestir á þessu svæði eru af íslenskum ættum og fluttu hingað upphaflega frá Íslandi,“ minnir Lorraine á. „Nær allir sem við elskum eru við það að tapa öllu sem þeir eiga,“ segir hún.

Ástandið í Vogum er slæmt og íbúarnir óttast hið versta.
Ástandið í Vogum er slæmt og íbúarnir óttast hið versta.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert