Sagður vera hægriöfgamaður

Lögreglumenn á Utøya þar sem skotmaðurinn myrti mörg ungmenni.
Lögreglumenn á Utøya þar sem skotmaðurinn myrti mörg ungmenni.

Norðmaðurinn, sem er í haldi lögreglu grunaður um að hafa staðið að baki sprengjuárásinni í Osló í dag og skotárás á eynni Utøya, er í félagsskap hægri öfgamanna á Austurlandi Noregs, samkvæmt heimildum TV2 sjónvarpsstöðvarinnar.

Að sögn blaðsins VG heitir maðurinn Anders Behring Breivik og er 32 ára. Er mynd af honum birt á vef blaðsins. Hann er sagður hafa verið skráður eigandi tveggja hálfsjálfvirkra skotvopna, annað er Glock skammbyssa. Vopnaðir lögreglumenn gerðu húsleit í íbúð í fjölbýlishúsi í vesturhluta Óslóar þar sem maðurinn hefur búið ásamt móður sinni. 

Sagt er að lögreglan fari að öllu með gát því óttast er að sprengjur kunni að finnast í húsinu. Sveinung Sponheim, aðstoðarlögreglustjóri, segir ekki hægt að fullyrða um hvort maðurinn hafi verið einn að verki. 

Fram kom á vef VG í kvöld, að Breivik hafi hafi á spjallsíðum á netinu lýst andúð á múslimum og stuðningi við þjóðernisstefnu.

Maðurinn hefur búið í vesturhluta Óslóar alla ævi en tilkynnti fyrir skömmu flutning til Hedmark fyrir norðan borgina. Hann hefur ekki komið við sögu norsku lögreglunnar og ekki verið í norska hernum utan að gegna hefðbundinni herskyldu. 

Að sögn VG hefur maðurinn verið virkur á mörgum spjallsíðum og lýst þar afgerandi skoðunum á norskum stjórnmálum, sem hann kallar þjóðernishyggju. Hann hefur gagnrýnt fjölmenningarstefnu og lýst þeirri skoðun að þjóðfélagsbaráttan sé nú milli þjóðernishyggju og alþjóðahyggju.

Þá hefur hann tjáð sig á sænskum samskiptasíðum og sagt þar að hann telji að fjölmiðlar hafi svikist undan merkjum með því að vera ekki nógu gagnrýnir í garð íslam.

Á Facebook-síðu sinni segist maðurinn vera framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis og hafi lagt stund á viðskipta- og trúarbragðafræði. Eini skólinn sem hann nefnir er verslunarskólinn í Ósló.

Hann stofnaði eigið garðyrkjufyrirtæki árið 2009 og VG segir, að hann hafi getað útvegað mikið magn af áburði gegnum það. Komið hefur fram í dag, að talið sé að sprengjan, sem sprakk í Ósló, hafi verið búin til úr áburði. 

Þá er maðurinn sagður vera virkur í tölvuleikjum á netinu, þar á meðal hlutverkaleiknum   World of Warcraft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert