Vandlega undirbúin hryðjuverk

Þessi mynd af Anders Behring Breivik er úr ritverkinu
Þessi mynd af Anders Behring Breivik er úr ritverkinu "2083 - A European Declaration of Independence" sem hann er talinn hafa samið. Reuters

Norski ódæðismaðurinn Anders Behring Breivik gróf búninga sína og vopn á víðavangi til þess að móðir hans kæmist ekki að áformum hans. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rúmlega 1.500 síðna skjali sem talið er að hann  hafi skrifað.

Fréttavefur Verdens Gang rekur efni skjalsins að nokkru leyti.  Andrew Berwick er skráður höfundur en norska lögreglan rekur yfirlýsinguna til Breivik sem er sakaður um sprenginguna í Osló og skotárásina á  Utøya á föstudaginn var. Margt í skjalinu þykir styðja að Breivik sé höfundurinn.

Fréttavefur norska útvarpsins NRK segir að Breivik hafi enn verið virkur í Framfaraflokknum og ungmennadeild hans þegar hann fór að undirbúa vopnaða baráttu sem var liður í einkastríði hans við það sem hann kallaði „menningarmarxisma“ og „aukna íslamiseringu“ Noregs og Evrópu.

Breivik skrifar að líta megi á hryðjuverkin sem markaðssetningu sem verði til þess að yfirlýsing hans verði þekkt um allan heim.

Hann lýsir því í skjalinu að hann hafi útvegað sér skothelt vesti og annan varnarbúnað, tvö skotvopn og efni til sprengjugerðar. Þegar í desember síðastliðnum fór hann að afla efnis í sprenguna sem olli mikilli eyðileggingu og manntjóni í stjórnarráðshverfi Osló á föstudag.

Færslur síðustu mánaða eru mjög nákvæmar. Þar kemur m.a. fram að Breivik hafi átt erfitt með að afla nógs fjár til að kaupa allt sem hann taldi sig vanta. Peningaskorturinn varð til þess að Breivik flutti úr íbúð sinni í Osló og heim til mömmu sinnar árið 2006.  Hann var dauðhræddur um að hún eða aðrir kæmust að áformum hans.

Hann segir að maður þurfi margar sögur til að dylja raunveruleikann og aðgang að háalofti eða kjallara þegar maður býr með öðrum. „Svo lengi sem þú passar að sá eða sú sem þú býrð með kemst ekki að því hvað þú ert að sýsla, þá er ekkert vandamál að búa með öðrum þangað til undirbúningsferlið hefst,“ skrifaði hann.

Samkvæmt plagginu pantaði Breivik ýmis efni á netinu því sprengiefnið átti að verða banvænt. Hann taldi sig geta útskýrt kaupin á hverju efni fyrir sig, nema einu, en hafði samt nokkrar áhyggjur.  Breivik skipti „aðgerðinni“ í nokkur skref.

Hann pantaði búning og gróf hann á víðavangi svo mamma hans fyndi hann ekki. Síðar keypti hann riffil með löglegum hætti og einnig Glock 17 skammbyssu. Skotvopnin gróf hann líka.

„Undirbúningsferlið“ hófst í maí síðastliðnum sem meðal annars fólst í gerð sprengjunnar. Hann leigði bóndabæinn Åsa í Heiðmörk til að geta unnið þar ótruflaður. Sprengjan var 500 kg að mati Per Nergaard sprengjusérfræðings og einföld að gerð.

Breivik leigði býlið frá 1. maí og flutti þar inn. Hann útbjó flóttaáætlun, ef bóndinn eða aðrir kæmust að áformum hans. Einnig sleit hann að mestu samskipti sín við vinina í Osló. Hann vildi ekki fá neinn í heimsókn af ótta við að upp um hann kæmist og afþakkaði heimsóknir fjölskyldu og vina.

Hann einbeitti sér að sprengjugerðinni frá því í maí og þar til nú í júlí. Á sama tíma undirbjó hann árásina á unga fólkið á Utøya. Þann 13. júní fór hann talsvert frá bóndabænum og sprengdi þar tilraunasprengju, sem sprakk eins og til var ætlast. Hann fór síðan á veitingahús að halda upp á afrekið.

Breivik tók stera síðustu mánuðina og vikurnar fyrir ódæðisverkið. Þann 2. júlí skrifaði hann að þá væri hann búinn að vera á sterum í níu vikur og óttaðist hann um heilsu sína. Daginn eftir skrifaði hann að hann óttaðist að sterarnir gerðu hann árásargjarnari en ella. Oft taldi hann að næstum hefði komist upp um sig.

Síðasta færslan er skráð 22. júlí, daginn sem ódæðisverkin voru framin.  „Ég held að þetta séu síðasta færslan mín. Nú er föstudagur 22. júlí, 12.51,“ skrifar Breivik. Lögreglan í Osló fékk tilkynningu klukkan 15.26 (að norskum tíma) um öfluga sprengingu í stjórnarráðshverfinu. Klukkan 17.57 barst lögreglunni í Nordre Buskerud tilkynning um skotárásina á Utøya.

Forsíða yfirlýsingarinnar sem er meira en 1.500 síður að lengd.
Forsíða yfirlýsingarinnar sem er meira en 1.500 síður að lengd. Reuters
Hér sést síðasta færsla Breivik sama dag og ódæðisverkin voru …
Hér sést síðasta færsla Breivik sama dag og ódæðisverkin voru framin. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert