Höfðu næstum skotið Breivik

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. Reuters/Jon-Are Berg-Jacobsen/Aftenposten via Scanpix

Fullyrt er að norskir sérsveitarmenn hafi verið hársbreidd frá því að skjóta Anders Behring Breivik til bana í Utøya á föstudag. Håvard Gåsbakk, stjórnandi sérsveitarinnar, sagði hins vegar á blaðamannafundi að Breivik hefði strax gefist upp þegar lögregla kom á staðinn.

Gåsbakk sagði, að lögreglumenn hefðu hrópað til Breiviks að hann skyldi gefast upp. Þá hafi Breivik lagt frá sér vopnið og lyft höndunum.

„Þetta var fullkomlega eðlileg handtaka," sagði Gåsbakk. 

Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar, að aðeins hafi munað sekúndubrotum að sérsveitarmennirnir yrðu Breivik að bana vegna þess að klæðnaður Breiviks þótti benda til þess, að hann væri hugsanlega með sprengju innan klæða.  

NRK segir, að Breivik hafi komið gangandi á móti lögreglumönnunum með handleggina á lofti til að sýna að hann var óvopnaður. En þegar honum var skipað að stansa hélt hann áfram. 

Segir NRK að lögreglumennirnir hafi verið í þann veginn að skjóta Breivik þegar einn þeirra sá á síðasta augnabliki, að hann var ekki með sprengju.

Gåsbakk sagðist vera stoltur af mönnum sínum þótt það hefði tekið langan tíma að komast til eyjarinnar.

„Þeir voru afar traustir og sýndu mikið hugrekki allan tímann," sagði hann. 

Jacob Bjerknæs, sem fór fyrir sérsveitarmönnunum á eyjunni, sagði, að þegar fyrsti hópur sérsveitarmannanna kom til eyjarinnar hefði hann mætt mörgum ungmennum, sem bentu í norður og sögðu að árásarmaðurinn væri þar.

Um mínútu síðar hefðu lögreglumennirnir heyrt skothvelli frá suðurhluta eyjarinnar og hraðað sér þangað um 300-350 metra vegalengd. Þeir hefðu kallað strax til árásarmannsins að þeir væru vopnaðir lögreglumenn.  

„Við þurftum að fara gegnum þétt kjarr. Það var erfitt að fá yfirsýn yfir stöðuna. Síðan komum við inn í skóglendi og skömmu síðar stóð árárásarmaðurinn fyrir framan okkur með hendurnar á lofti. Hann var handtekinn með venjulegum hætti," sagði Bjerknæs.

Lögreglan segir, að sjálfvirkur riffill, sem Breivik notaði, hafi fundist í um 15 metra fjarlægð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert