Hitler sagður hafa látist í Argentínu

Adolf Hitler árið 1937.
Adolf Hitler árið 1937. mbl.is

Adolf Hitler framdi ekki sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi í Berlín árið 1945 heldur flúði með Evu Braun til Argentínu þar sem hann ól upp tvær dætur og bjó til dauðadags árið 1962. Þessu er haldið fram í nýrri bók sem tveir breskir blaðamenn rituðu.

Gerrard Williams segir að hann og meðhöfundur sinn Simon Dunstan hafi fundið ótalmörg sönnunargögn sem styðji að Hitler hafi látist á gamals aldri í Suður-Ameríku. Rannsóknir þeirra bendi til þess að það sé rangt að hann hafi framið sjálfsmorð 1945. „Við vildum ekki endurskrifa söguna, en sönnunargögnin sem við fundum um flótta Adolfs Hitlers eru einfaldlega of mörg til þess að við getum hunsað þau,“ segir Williams. Engar réttarlæknisfræðilegar sannanir séu fyrir því að hann eða Eva Braun hafi látist og frásagnir vitna í Argentínu séu sannfærandi.

Í bókinni, Grey Wolf: The Escape Of Adolf Hitler, segir að flogið hafi verið með Hitler og Braun til Argentínu í apríl árið 1945. Þar hafi þau búið í sautján ár ásamt tveimur dætrum allt þar til Hitler lést 1962. Í bókinni er því haldið fram að leyniþjónustan í Bandaríkjunum hafi tekið þátt í yfirhylmingunni gegn því að fá upplýsingar um hernaðartækni nasistanna. „Stalín, Eisenhower og Hoover hjá FBI vissu allir að engar sannanir væru fyrir því að Hitler hefði dáið í byrginu,“ segir Williams.

Hann segir í bókinni að hlutar úr höfuðkúpu sem hafa fundist og eru sagðir vera úr Hitler, tilheyri í raun ungri konu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert