Hundsuðu barn sem varð fyrir bíl

Frá Kína.
Frá Kína. Reuters

Fjölmiðlar og netheimar í Kína loga eftir að opinberuð var upptaka úr öryggismyndavél sem sýnir vegfarendur hundsa slasað ungbarn sem verður tvívegis fyrir bíl. Barnið hefur verið lýst heiladautt eftir slysið.

Á upptökunni sést þegar ekið er á tveggja ára stúlkubarn í kínversku borginni Foshan.  Bílstjórinn sést staldra aðeins við, á meðan telpan liggur undir bílnum. Hann ekur svo af stað aftur og yfir fótleggi hennar. Næstu mínútur sjást yfir 10 vegfarendur, þ. á m. hjólreiðamaður, mótorhjólamaður og kona með barn, fara hjá, sjá stúlkuna liggja grátandi á götunni, en sinna því í engu. Nokkrum mínútum síðar er ekið á hana aftur.

Að lokum kom sorphirðumaður telpunni til hjálpar og fór með hana á sjúkrahús þar sem hún gekkst undir bráðaskurðaðgerð, en í gær lýstu læknar hana heiladauða. Kínverskir fjölmiðlar segja að móðir telpunnar hafi misst sjónar á henni á meðan hún þvoði þvott.

Atvikið hefur vakið gríðarlega reiði meðal Kínverja sem hafa margir lýst áhyggjum sínum af því að þjóðina skorti manngæsku og samkennd. Bílstjórarnir tveir hafa nú báðir verið handteknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert