Grýttu og skutu mæðgur til bana

Hópur vopnaðra manna grýttu og skutu konu og dóttur hennar til bana í Ghazni-héraði í Afganistan í gær. Talið er að um talíbana hafi verið að ræða, en þeir höfðu ásakað konurnar um siðferðis- og hjúskaparbrot.

Að sögn lögreglunnar hafa tveir menn verið handteknir í tengslum við morðið en það átti sér stað á heimili kvennanna, aðeins nokkur hundruð metrum frá skrifstofum lögreglustjórans og ríkisstjórans í Ghazni-borg.

Atburðarásin var þannig að vopnaðir menn brutu sér leið inn í húsið þar sem ung ekkjan bjó ásamt dóttur sinni. Þeir færðu mæðgurnar út í garð þar sem þeir tóku að grýta þær en því næst voru þær skotnar til bana. Nágrannarnir komu mæðgunum ekki til hjálpar og létu lögreglu ekki vita af því sem hafði gerst.

Að sögn lögreglunnar hefur fjöldi trúarleiðtoga í borginni gefið út tilskipanir um að fólk eigi að tilkynna um alla þá sem fremji hjúskaparbrot.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert