Íbúðin eins og vígvöllur

Íbúð fjöldamorðingjans Mohammed Merah er illa farin eftir byssukúlur en rúmlega 30 tíma umsátri lögreglu lauk á fimmtudag með því að sérsveit lögreglu skaut Merah til bana. Alls voru tuttug byssukúlur í líkama hans, þar af tvær banvænar.

Merah viðurkenndi áður en umsátrinu lauk að hann hefði myrt þrjá hermenn og fjóra gyðinga, þar af þrjú börn, dagana á undan.

Bróðir Merah, Abdelkader Merah, er nú yfirheyrður af leyniþjónustu Frakka, (DCRI), í París en unnusta hans er einnig í haldi leyniþjónustunnar. Abdelkader sagði við lögreglu fyrr í vikunni að hann væri stoltur af gjörðum bróður síns. Hann neitar því hins vegar að hafa aðstoðað hann við voðaverkin. Móðir þeirra var einnig handtekin í vikunni en henni var sleppt án ákæru í gærkvöldi.

Leyniþjónustan rannsakar nú hvort Merah, 23 ára gamall Frakki af alsírskum uppruna, hafi verið einn að verki. Meðal þess sem hefur vakið spurningar er hvernig smáglæpamaður hafði möguleika á að koma sér upp vopnabúri og leigt bíl án þess að vera með neinar tekjur.

Á vef BBC kemur fram að hann hafi sagt lögreglu á meðan á umsátrinu stóð að hann hefði keypt vopn fyrir um 20 þúsund evrur, 3,4 milljónir króna, og peningana hefði hann fengið í innbrotum og með annarri ólöglegri starfsemi.

Merah, sem sagðist sjálfur vera liðsmaður al-Qaeda, tók upp árásirnar með upptökuvél sem hann hafði fest á líkama sinn. 

Lögregla og saksóknari segja að Abdelkader Merah, 29 ára, sé öfgafullur íslamisti og að leifar sprengiefnis hafi fundist í bifreið hans samkvæmt frétt AFP. Hann var yfirheyrður fyrir nokkrum árum vegna tengsla við samtök sem sendu ungmenni frá Toulouse-svæðinu til Írak. Ekki var gert meira í málinu.

Lögmaður móður bræðranna, Zoulika Aziri,  segir að veröld hennar hafi verið snúið á hvolf. Hún sér gjörsamlega eyðilögð. Hún hafi aldrei getað ímyndað sér að sonur hennar myndi fremja voðaverk af þessu tagi.

Sérfræðingar í hryðjuverkjum í Frakklandi og Ísrael hafa harðlega gagnrýnt aðgerðir sérsveitar lögreglu, RAID, en fimm lögreglumenn særðust í umsátrinu. Hefur meðal annars verið bent á að ef lögregla hefði notað táragas þá væru meiri líkur á að Merah hefði náðst á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert