Sagður óhóflega sjálfselskur

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik grét í réttarsal í morgun þegar áróðursmyndskeið, sem hann útbjó áður en hann framdi voðaverk sín 22. júlí í fyrra, var sýnt. Réttarsálfræðingur segir það vera merki um að Breivik sér sérlega upptekinn af sjálfum sér.

„Þegar nöfnin á þeim sem hann myrti voru lesin upp í morgun sáust engin svipbrigði á andliti hans. En hann brestur út grát um leið og myndskeið, sem hann bjó sjálfur til, er sýnt, segir norski réttarsálfræðingurinn Svenn Torgersen í samtali við vefsíðu Aftenposten.

„Hann ber mjög sterkan kærleik til sjálfs sín. Það er minn skilningur,“ bætti Torgersen við og sagði sakborninginn þjást af óhóflegri sjálfselsku.

Sinding Bekkedal, eitt þeirra ungmenna sem komst lífs af frá Útey þann 22. júlí í fyrra, segir að viðbrögð Breiviks geri fátt annað en að sýna hversu upptekinn hann sé af sjálfum sér.

Ýmsar athafnir Breiviks hafa verið raktar við réttarhöldin í morgun. 

Að sögn Sveins Holden ríkissaksóknara Noregs, keypti Anders Behring Breivik vopn af 15 vopnasölum í fjórum löndum á tímabilinu 2010-2011.  Hann keypti mikið magn lyfja á ýmsum vefsíðum, bæði norskum og erlendum og mun hafa átt 11 kreditkort.

Holden lýsti sprengjugerð Breiviks og því hvernig hann hefði fengið efni til hennar og var hljóðið þá tekið af beinni útsendingu úr salnum.

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik í dómssal í morgun.
Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik í dómssal í morgun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert