Draghi: Nú er komið að ögurstundu

Mario Draghi bankastjóri Evrópska seðlabankans.
Mario Draghi bankastjóri Evrópska seðlabankans. AFP

Óvissa jókst enn á evrusvæðinu í dag eftir að slæmum efnahagshorfum var spáð, fyrst og fremst vegna ástands mála í Grikklandi. Engin lausn virðist í sjónmáli á vanda evrulandanna. Gengi evrunnar hefur ekki verið jafn lágt gagnvart Bandaríkjadollara undanfarna 22 mánuði.

Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, sagði í dag að nú væri ögurstund hjá Evrópusambandinu. Þörf væri á pólitísku hugrekki til að leysa vandann. „Skuldavandi evruríkjanna hefur leitt í ljós veikleika Evrópusambandsins,“ sagði Draghi. Hann bætti því við að þó að vöxtur væri forsenda þess að leysa skuldavandann, þá væri enginn vöxtur án aðhalds í ríkisfjármálum.

Hann sagði að efla þyrfti Evrópska seðlabankanna og skipuleggja að nýju ýmsa sjóði ESB.

Fari svo, að Grikkir kjósi gegn opinberum niðurskurði í þingkosningunum 17. júní, er búist við því að ESB, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stöðvi allar lánveitingar til þeirra. Engar líkur eru taldar á því að Grikkir myndu haldast áfram á evrusvæðinu eftir það. Afleiðingarnar gætu orðið afdrifaríkar við önnur þau ríki sem standa höllum fæti, eins og t.d. Spánn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert