Morðinginn var í skóla með fórnarlömbunum

Víða var flaggað í hálfa stöng í Finnlandi í dag …
Víða var flaggað í hálfa stöng í Finnlandi í dag vegna morðanna. AFP

Maðurinn, sem skaut á hóp fólks í bænum Hyvinkää í Finnlandi í fyrrinótt og myrti tvö ungmenni, var kunnugur þeim. Hann gekk í sama skóla og þau tvö sem hann myrti, en var hættur í skóla fyrir nokkru.

Í fyrstu virtist sem maðurinn hefði skotið á fólkið af handahófi. 

Hann er 18 ára, jafngamall piltinum og stúlkunni sem hann myrti. Sjö eru særðir eftir árásina, þar af ein kona lífshættulega.

Var með vinum sínum á krá

Skotmaðurinn hafði verið með vinum sínum á krá fyrr um kvöldið. Hann yfirgaf hópinn, skrifaði „Þetta var skemmtilegt félagar“ á facebooksíðu sína og fór síðan upp á þaksvalir í miðbæ Hyvinkää þaðan sem hann skaut á fólkið.

Ekkert virðist benda til þess að hann hafi verið búinn að skipuleggja fjöldamorð. Talsmaður finnsku rannsóknarlögreglunnar segir í samtali við vefsíðu sænska blaðsins Dagens Nyheter að svo virðist sem eitthvert æði hafi gripið piltinn. Hann hefur játað sig sekan, en hefur ekki gefið upp neina ástæðu fyrir verknaðinum.

Segir morðingjann hafa verið yfirvegaðan

Maður, sem sá þegar ódæðin voru framin, segir morðingjann hafa verið sallarólegan og algerlega lausan við stress. Hann sagðist ekki hafa betur séð en morðin væru þaulæfð og skipulögð. 

Skotmaðurinn gekk í herinn eftir að hann hætti í menntaskóla, en entist ekki lengi þar. Hann mun hafa mjög mikinn áhuga á alls kyns skotvopnum.

Frétt mbl.is: Tveir látnir eftir skotárás í Finnlandi

Frá vettvangi morðsins í bænum Hyvinkää í Finnlandi.
Frá vettvangi morðsins í bænum Hyvinkää í Finnlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert