Zimmerman skipað að gefa sig fram

George Zimmerman.
George Zimmerman.

George Zimmerman sem ákærður hefur verið fyrir að myrða 17 ára pilt, Trayvon Martin, 26. febrúar sl. hefur verið gert að gefa sig fram við lögreglu. Hann er laus gegn tryggingu en hún hefur verið felld úr gildi vegna nýrra upplýsinga sem komið hafa fram.

Dómari í Flórída hefur gefið Zimmerman tvo sólarhringa til að gefa sig fram, að öðrum kosti verður hann eftirlýstur og handtekinn þar sem hann finnst. Ákæruvaldið í málinu lagði fram kröfu um að honum yrði að nýju gert að sæta varðhaldi.

Er það sökum þess að nýjar upplýsingar hafa komið fram um fjármál Zimmermans og að í ljós kom að hann er með tvö vegabréf, annað sem hann fékk aðeins tveimur vikum eftir morðið.

Zimmerman var foringi nágrannavaktar í bænum Sanford og á vakt að kvöldi 26. febrúar sl. þegar Trayvon, sem er þeldökkur, hélt sína leið úr matvöruverslun með sælgætispoka í hendi.

Zimmerman hringdi í neyðarnúmer lögreglu og sagðist hafa komið auga á „verulega grunsamlegan“ mann. Honum var sagt að lögregla skyldi athuga málið og var beðinn um að elta manninn ekki. Zimmerman fór ekki að beiðni lögreglu en elti piltinn vopnaður skotvopni sínu.

Engin vitni eru að því hvað gerðist eftir það en Zimmerman ber við sjálfsvörn. Martin var hins vegar óvopnaður.

Trayvon Martin
Trayvon Martin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert