Segir af sér vegna umferðarslysa

John Bryson, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna.
John Bryson, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna. Wikipedia

Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, John Bryson, tilkynnti afsögn sína í dag nokkrum vikum eftir að hann varð valdur að tveimur umferðarslysum í Kaliforníu sem rakin eru til þess að hann hafi fengið krampa undir stýri.

Fram kemur í frétt AFP að lögreglurannsókn sé í gangi í Kaliforníu vegna málsins en í bæði skiptin yfirgaf Bryson vettvang áður en lögregla mætti á staðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu ók Bryson aftan á kyrrstæða bifreið sem beið þess að komast yfir járnbrautarteina í borginni San Gabriel. Hann ræddi við mennina í bifreiðinni og ætlaði síðan af stað aftur en ók þá aftur á hina bifreiðina.

Eftir það ók hann til borgarinnar Rosemead þar sem hann ók á aðra bifreið. Bryson fannst skömmu síðar án meðvitundar í bifreið sinni undir stýri. Ekki er talið að áfengi eða lyf hafi komið við sögu og ekkert líkamstjón varð í slysunum.

Bryson er 68 ára gamall og tók við embætti viðskiptaráðherra á síðasta ári þegar forveri hans Gary Locke var skipaður sendiherra Bandaríkjanna í Kína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert