Ný ríkisstjórn í Sýrlandi

Mótmælt í Sýrlandi.
Mótmælt í Sýrlandi. AFP

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, gaf í dag út opinbera tilkynningu þess efnis að ný stjórn hefði verið mynduð í Sýrlandi. Þetta kom fram á ríkisrekinni sjónvarpsstöð í Sýrlandi, en tæplega tveir mánuðir hafa liðið frá þingkosningunum í Sýrlandi. Stjórnarandstaðan í Sýrlandi sniðgekk kosningarnar.  

„Forseti Bashar al-Assad hefur myndað nýja ríkisstjórn og mun Dr. Riad Hijab gegna stöðu forsætisráðherra,“ kom fram í tilkynningunni.

Walid al-Muallem, utanríkisráðherra Sýrlands, mun gegna því embætti áfram, en varnarmálaráðherra og innanríkisráðherra munu einnig halda sínum embættum.

Dr. Riad Hujab, fyrrum ráðherra landbúnaðarmála, tók við embætti forsætisráðherra þann 6. júní síðastliðinn. Hann fékk það hlutverk að mynda nýja ríkisstjórn eftir seinustu þingkosningar, en stjórnarandstaðan í Sýrlandi og Vesturveldin telja að Assad hafi staðið að víðtæku kosningasvindli í kosningunum. 

Nýja ríkisstjórnin samanstendur af 34 ráðherrum og þeirra verk er að kveða niður uppreisnina sem á sér stað í Sýrlandi, en í seinustu viku gerði SÞ hlé á eftirlitsstörfum sínum í Sýrlandi.

A.m.k. 15 manns voru drepnir í dag í átökum í Sýrlandi, en 116 manns létu lífið í gær og þar af 69 óbreyttir borgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert