Biðlar til frönsku þjóðarinnar

Frá franska þinginu í dag
Frá franska þinginu í dag AFP

Forsætisráðherra Frakklands, Jean-Marc Ayrault, hvetur frönsku þjóðina til þess að standa á bak við stjórn landsins í baráttunni við skuldir hins opinbera.

Ríkisendurskoðun Frakklands hefur varað við því að fjárlagahallinn stefni í 43 milljarða evra. Fjármálaráðherra Frakklands hefur varað við því að hagvöxtur muni verða minni í landinu en áður hafði verið spáð.

Sagði Ayrault á þingi í dag að ríkissjóður greiði tæplega 50 milljarða evra til lánardrottna árlega. Biður hann þingmenn og almenning í landinu að taka þátt í því að bregðast við þessum mikla halla á meðan það er ekki of seint. „Skuldum vafið Frakkland er ósjálfstætt Frakkland.“

Ayrault segir að samkvæmt niðurskurðaráætlunum sé stefnt að hallalausum fjárlögum árið 2017. Hann sakar ríkisstjórn fráfarandi forseta, Nicolasar Sarkozy, um óreiðu í efnahagsmálum. Á árunum 2007 til 2011 hafi skuldir franska ríkisins vaxið um 600 milljarða evra og eru þær um 1.800 milljarðar evra í dag eða 90% af landsframleiðslu.

Samkvæmt nýrri hagvaxtarspá er spáð 0,3% hagvexti í Frakklandi í ár en fyrri spá hljóðaði upp á 0,5% hagvöxt. Á næsta ári er spáð 1,2% hagvexti en fyrri spá hljóðaði upp á 1,7%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert