Konur hefðu afstýrt hneyksli í kirkjunni

Írskar nunnur. Upp hefur komist um mörg kynferðisbrot kaþólskra presta …
Írskar nunnur. Upp hefur komist um mörg kynferðisbrot kaþólskra presta á Írlandi. AFP

Hefðu konur átt þess kost að gegna valdastöðum í kaþólsku kirkjunni hefðu hneykslismálin í gegnum tíðina verið færri, segir femínistinn, blaða- og sagnfræðingurinn Lucetta Scaraffia, sem berst fyrir kvenréttindum innan kaþólsku kirkjunnar.

Hvert hneykslismálið hefur rekið annað í kirkjunni og hjá því hefði verið hægt að komast, segir Scaraffia. Fjölmörg kynferðisbrotamál hafa komið upp innan kirkjunnar síðustu misseri og hefur Scaraffia m.a. talað fyrir því að konur kenni prestum á námskeiðum félagslega og menningarlega færni sem hjálpi þeim að takast á við skírlífið sem starfinu fylgi.

„Í næstum öllum tilvikum eru karlar gerendur í kynferðisbrotamálunum sem upp hafa komið innan kirkjunnar. Ef konur hefðu verið í valdastöðum hefðu þær ekki leyft þessum hlutum að eiga sér stað,“ segir hún. „Konur hafa oft verið taldar hættulegar í kynferðislegum skilningi. En augljóslega liggur vandinn hjá karlmönnum og börnum.“

Scaraffia stýrir sérblaði um málefni kvenna í dagblaði Vatíkansins. Dagblað Páfagarðs, The Osservatore Romano, á sér 150 ára sögu og einhverjir voru og eru ósáttir við framlag Scaraffia sem þó hefur stuðning páfans til verksins.

„Það eru einhverjir sem segjast ekki lesa þetta,“ segir hin 64 ára gamla blaðakona. „Þeir vilja ekki segja að þetta sé ekki nógu gott og því segja þeir frekar að þeir hafi ekki áhuga á að lesa þetta. Tómlætið er hræðilegt.“ En hún bætir því við að sjálfur páfinn hafi ákveðið að ráða konu til starfa á blaðinu.

Dagblaðið The Osservatore Romano var stofnað árið 1861 en það var ekki fyrr en árið 2008 að fyrsti kvenkyns blaðamaðurinn fékk að skrifa í það.

Scaraffia segir markmið sitt að leyfa rödd kvenna innan kaþólsku kirkjunnar að heyrast. Hún viðurkennir að baráttan sé einmanaleg.

„Það er kvenhatur innan kirkjunnar,“ segir hún. „Þetta er aflokaður heimur þar sem valdabaráttan er mikil. Margir karlar innan prestastéttarinnar telja að ef konur komist í sviðsljós kirkjunnar verði minna pláss eftir fyrir þá.“

Nunnur sagðar róttækir femínistar

Vatíkanið á þegar í basli með róttækar, bandarískar nunnur sem bundist hafa sambandi kvenna innan kirkjunnar og haldið ráðstefnur um stjórnun. Í maí síðastliðnum gaf Vatíkanið út skýrslu þar sem þetta samband kvenna er gagnrýnt fyrir „róttækan femínisma“ og fyrir að berjast ekki af nægri hörku gegn hjónaböndum samkynhneigðra og fóstureyðingum.

Aðrir innan kaþólsku kirkjunnar hafa kallað eftir aukinni þátttöku kvenna í stjórnun.

„Það er ekki hægt að halda svona áfram. Konur innan kirkjunnar eru reiðar!“ segir Scaraffia.

Mál sem nýlega kom upp og kallað hefur verið „Vatileaks“ hefur hrist rækilega upp í Páfagarði en Scaraffia er sannfærð um að því máli hefði einnig verið hægt að afstýra ef konur væru í valdastöðum í kirkjunni. Vatileaks-málið snýst um trúnaðarskjöl sem tekin voru úr skjalasafni Páfagarðs og komið til fjölmiðla. Yfirþjónn sjálfs páfa er í haldi vegna málsins. Talið er að málið sé tilkomið vegna valdabaráttu ólíkra hópa í kaþólsku kirkjunni.

Scaraffia varð femínisti er hún missti trúna á sjöunda áratugnum. Hún sneri aftur í kaþólsku kirkjuna fyrir um tuttugu árum. En þótt hún kalli sig femínista hefur hún í heiðri gömul gildi kaþólskunnar, hún er til að mynda á móti fóstureyðingum og er fylgjandi skírlífi presta.

Hún segist styðja Benedikt páfa sem sé í erfiðri stöðu. Mörg óþægileg mál hafi komið upp frá því hann tók við, mál sem hafi verið þögguð niður í 30-50 ár.

Páfagarður getur verið kuldalegur í garð kvenna.
Páfagarður getur verið kuldalegur í garð kvenna. AFP
Benedikt páfi hefur þurft að takast á við erfið kynferðisbrotamál …
Benedikt páfi hefur þurft að takast á við erfið kynferðisbrotamál frá því hann tók við starfi. Hann segir viðurkenningu á þeim hluta af hreinsun kirkjunnar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert