Háttsettur sýrlenskur embættismaður sem hefur gengið til liðs við stjórnarandstöðuna í landinu segir að sýrlensk stjórnvöld muni ekki hika við að beita efnavopnum telji þau sig hafa verið króuð af úti í horni. Þetta segir Nawaf Fares, sem er fyrrverandi sendiherra í Írak, í samtali við BBC.
Fares segir ennfremur, að óstaðfestar fréttir bendi til þess að efnavopnum hafi þegar verið beitt í átökunum í landinu.
Þá heldur hann því fram að stjórnvöld í Sýrlandi hafi skipulagt meiriháttar sprengjuárásir í landinu með aðstoð al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna.
Í dag mun Kofi Annan, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins, funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um stöðuna í Sýrlandi. Rússar eru bandamenn Sýrlendinga.