Forsætisráðherra Sýrlands rekinn

Riad Hijab þegar hann sór embættiseið sem forsætisráðherra andspænis Bashar …
Riad Hijab þegar hann sór embættiseið sem forsætisráðherra andspænis Bashar al-Assad þann 26. júní 2012. -

Sprengja sprakk í nótt í höfuðstöðvum ríkissjónvarps og -útvarps Sýrlands, í höfuðborginni Damaskus. Fregnir herma að þrír hafi særst í sprengingunni og einhverjar skemmdir orðið, en útsendingar ríkissjónvarpsins haldi þó áfram. 

Nokkrum klukkustundum síðar var greint frá því í sjónvarpsfréttum að forsætisráðherra landsins, Riad Hijab, hefði verið rekinn. Hann var skipaður fyrir tveimur mánuðum og talinn harður stuðningsmaður stjórnar Bashars al-Assads. 

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að Hijab hafi gerst liðhlaupi, hann hafi snúist á sveif með stjórnarandstæðingum og flúið landið. Það hefur ekki fengist staðfest en sé það rétt er Hijab hæst setti liðhlaupinn til þessa á 17 mánaða tímabili átakanna í Sýrlandi. 

Fjölmargir háttsettir foringjar í sýrlenska hernum hafa farið yfir landamærin til Tyrklands og hafa þeir lýst yfir stuðningi við hersveitir uppreisnarmannanna. Sá síðasti sem það gerði var hershöfðinginn Muhammed Ahmed Faris, sem fyrstur Sýrlendinga fór út í geim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert