Magnað sjónarspil í London

Rihanna, Coldplay og Jay-Z stigu á svið innan um logandi stríðsmenn, fljúgandi listamenn og furðufarartæki þegar botninn var sleginn í Ólympíumót fatlaðra með glæsilegri þriggja klukkustunda langri lokahátíð í London.

80.000 gestir fylgdust með sjónarspilinu en alls tóku 1.336 sjálfboðaliðar þátt í lokaathöfninni og yfir 50 trommuleikarar spiluðu taktfasta tónlist í gríðarlegri ljósadýrð á leikvanginum. Þá stigu næstu gestgjafar á svið með brasilískri karnivalsveiflu, en næsta ólympíumót fer fram í Rio de Janeiro árið 2016. 

Ólympíumót fatlaðra þykir alveg sérstaklega vel heppnað í ár. Sebastian Coe, stjórnarmaður Ólympíuleikanna og Ólympíumótsins í London, sagði að þessi íþróttaveisla sumarsins hefði verið „söguleg ævintýraferð mannlegra afreka og kappsemi“ og um leið „innblástur öllum þeim sem komu nálægt“.

Hátíðinni lauk með risastórri flugeldasýningu yfir leikvanginum og Thames-ánni og samtímis var þakkarorðum varpað á breska þinghúsið: „Takk London, takk Bretland.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert